Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 98/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 98/2023

Miðvikudaginn 28. júní 2023

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 15. febrúar 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 28. nóvember 2022 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 16. júní 2021, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítalanum þann X vegna vinnuslyss þann X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 28. nóvember 2022, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 22. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 3. mars 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. mars 2023, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. nóvember 2022, um að synja umsókn hans um bætur úr sjúklingatryggingu verði felld úr gildi.

Í kæru er greint frá því að þann X hafi kærandi verið að vinna við sprunguviðgerðir. Hann hafi dælt uretani með háþrýstisprautu í gegnum nippla sem hafi verið staðsettir í sprungu. Annar starfsmaður hafi haldið á dælunni og stjórnað henni. Örmjó buna af uretani hafi skotist út fyrir nippil og lent í hægri lófa kæranda. Gat hafi komið á húð lófamegin við hnúalið II. Slysið hafi gerst rétt fyrir hádegi og daginn eftir hafi kærandi farið á bráðamóttöku Landspítalans þar sem hann hafi verið slæmur af verkjum í hægri hendi. Tekin hafi verið röntgenmynd af hægri hendi en ekki annað gert.

Í bráðamóttökuskrá, dags. X, segi að Polyurethane úr háþrýstidælu hafi sprautast inn í hægri lófa. Þetta slys hafi gerst daginn fyrir komu en nú væri kærandi með vaxandi verki og bólgu í hægri hendi. Í bráðamóttökuskrá segi:

„Efni Webac 1440, virðist vera ertandi efni.“

Í áliti og áætlun segi:

„Inndæling ertandi efna í lófa með háþrýstidælu, óljós hversu mikill þrýstingur en klárt entry sár. Vaxandi bólga og verkir. Spurning hvort það hafi komist í sinaslíður eða sé bara að valda bólgu vegna ertinga á mjúkvefi.“

Lýst hafi verið stífleika og þrota í vísifingri hægri handar. Röntgenmynd hafi ekki sýnt áberandi beináverka. Fengin hafi verið ráðgjöf bæklunarlæknis og kærandi fengið sýklalyf. Hann hafi verið útskrifaður með verkjastillingu. Hann hafi síðan komið í eftirlit á vikufresti og meðal annars verið skoðaður af C handaskurðlækni. Ákveðið hafi verið að meðhöndla án skurðaðgerðar og hafi læknirinn tjáð kæranda að ekkert væri annað hægt að gera en að bíða og sjá til. Kærandi hafi ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og hafi leitað til skurðlæknis í D þar sem gerð hafi verið aðgerð og hreinsað út eitthvað af efni. Þá hafi verið liðinn um mánuður frá slysinu.

Þegar til Íslands hafi verið komið hafi kærandi aftur leitað til sama læknis og hann hafði verið í eftirliti hjá og að sögn kæranda hafi læknirinn verið ósáttur við að hann hefði leitað til læknis í D. Eftir það hafi kærandi leitað til D lýtalæknis sem hafi framkvæmt aðgerð þann X. Hann hafi þá hreinsað út talsvert magn af Polyurethani. Beygjusininni út í vísifingur hafi hins vegar ekki verið bjargað. Í vottorði E, dags. X segi eftirfarandi:

„Þessi X ára gamli karlmaður sem hefur unnið við byggingariðnað varð fyrir alvarlegum áverka á hægri hendi þegar hann af slysni skaut polyurethane byggingarefni undir háþrýstingi inn í hægri lófa og vísifingur. Hann mun hafa að eigin sögn leitað á Slysadeild þar sem hann hitti handarsérfræðing að eigin sögn, en sá hafi einungis ráðlagt sýklalyf í æð vegna mikillar bólgu og verkja. Hann mun í því framhaldi nokkrum mánuðum seinna hafa leitað til undirritaðs á stofu vegna bólgu og verkja í hendinni, þar sem í ljós kom við aðgerð þ. X að það var mikið af framandi efni í lófanum og fram í vísifingur ásamt sýkingareinkennum og ennfremur kom í ljós að beygjusinar vísifingurs voru í sundur. Hann mun síðan hafa beðið eftir viðtali við handarsérfræðing á Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi með tilliti til endurgerðar á beygjusinum fram í vísifingurinn. Það er alveg ljóst að þessi X ára gamli karlmaður hefur orðið fyrir alvarlegum áverka á hægri hendinni vegna framandi efnis sem þrýstist inn í mjúkvefi lófans, auk þess sem að beygjusinar fingursinsfóru í sundur. Það verður að teljast alvarlegasta tjónið sem hann varð fyrir, því beygjusinar eru mjög mikilvægar fyrir eðlilega notkun handarinnar. Það virðist því vera samkævmt þessu að það hefur orðið sú yfirsjón að greina ekki þennan áverka strax og meðhöndla tilhlýðilega. Hann mun þurfa að undirgangast frekari aðgerðir á hægri hendi til þess að endurgera beygjusinar fram í vísifingur hægri handar og er ekki hægt að slá því föstu að sinaviðgerðir skili eðlilegri hreyfigetu vísifingursins, og þar með handarinnar. Það verður því að teljast að starfsskerðing hans til nokkurra mánaða hafi verið verulega mikil sökum þessa og óljóst er á þessu stigi málsins hversu varanlega skerðingu hann fær í hreyfingu fingursins og almennt í gripkrafti hægri handar. Það mun koma í ljós eftir hugsanlega beygjusinaviðgerð á Landspítala Háskólasjúkrahúsi hvernig starfshæfni hans verður til framtíðar með tilliti til hreyfingar vísifingurs hægri handar og gripkrafts.“

Afleiðingar vinnuslyssins hafi verið metnar með matsgerð F læknis, dags. 1. júní 2021 og hafi niðurstöður hennar verið eftirfarandi:

1. Stöðugleikapunktur: X.

2. Tímabundinn missir starfsorku: 100%: X til X.

3. Varanleg læknisfræðileg örorka: 15%

Kærandi hafi verið ósáttur við þá læknismeðferð sem hann hafi fengið í upphafi máls og hafi því sent inn umsókn um bætur úr sjúklingartryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu til Sjúkratrygginga íslands, þann 16. júní 2021, ásamt kvörtun til Embættis landlæknis. Nú liggi fyrir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þar sem því sé hafnað að fyrir liggi bótaskylt tjón samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kærandi byggi á því að læknismeðferð sú er hann hafi hlotið á Landspítala hafi verið ófullnægjandi og ekki tilhlýðileg miðað við þann áverka sem hann hafði hlotið á hendi og hafi það leitt til mikils tjóns fyrir hann. Fyrirséð sé að starfsorkuskerðing hans til framtíðar sé umtalsverð, enda hafi varanlegur miski verið metinn til 15 stiga.

Kærandi byggi á að tjón hans sé bótaskylt á grundvelli laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000, einkum með vísan til ákvæða 1., 3. og 4. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna. Einkum sé á því byggt að komast hefði mátt hjá tjóni hans hefði rannsókn eða meðferð verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Telji kærandi að ekki hafi verið staðið rétt að meðferð hans í upphafi.

Kærandi geti með engu móti fallist á þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands að meðferð hafi verið ásættanleg og að allar skemmdir sem kærandi búi nú við í hendi sé að rekja til þess augnabliks þegar áverkinn hafi átt sér stað. Það álit lækna, sem standi að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, sé í ósamræmi við álit E lýtalæknis sem virðist telja það yfirsjón að greina áverkann ekki þegar í stað og meðhöndla hann tilhlýðilega. Sé á því byggt að viðurkenna beri rétt kæranda til bóta úr sjúklingatryggingu.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 22. júní 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum þann X vegna vinnuslyss þann X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og hafi málið verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 28. nóvember 2022, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að það væri mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðun stofnunarinnar, dags. 28. nóvember 2022 og því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Vísað er til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins.

Í ákvörðun frá 28. nóvember 2022 segi meðal annars að ekki verði annað séð af gögnum málsins að mati Sjúkratrygginga Íslands en að sú meðferð sem kærandi hafi fengið á Landspítala þann X, hafi verið hagað í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. WEBAC® 1440, efnið sem kærandi hafi fengið í hægri lófa, sé tveggja þátta polyurethane efni með hraða þenslu og notað til inndælingar við þéttingu á sprungum eða eyðum í steinsteypu. Efnið byrji að vinna um leið og það komist í snertingu við raka eða vatn. Polyurethane sé afurð efnahvarfs milli polyhydroxy alkóhól og diisocynate en bæði efnin séu eitruð og ertandi. Um leið og efnahvarfið hafi átt sér stað hafi myndast polyurethane frauð, sem sé algjörlega óhvarfgjarnt og hættulaust mönnum. Þensla eftir blöndun sé háð ýmsum þáttum en geti verið allt að 30 til 60-föld. Hvarftími WEBAC® 1440 sé um 4 mínútur.

Ljóst sé að um bráðaástand hafi verið að ræða. Þar sem kærandi hafi leitað á bráðamóttöku tveimur dögum eftir slysið sé ljóst að óbætanlegar og óafturkræfar skemmdir hefðu orðið á hendi kæranda, löngu fyrir komu hans á bráðamóttöku þann X. Þannig hafi orðið skemmdir á hendi kæranda af völdum háþrýstings á því augnabliki sem áverkinn hafi átt sér stað. Með öðrum orðum hafi orðið efnafræðilegar skemmdir á hendi kæranda af völdum efnisins WEBAC® 1440 á fyrstu mínútum eftir áverkann. Hefði kærandi leitað á bráðamóttöku strax eftir slysið hefði að öllum líkindum verið tekin önnur afstaða í málinu og mögulega hefði verið ástæða til að taka kæranda til aðgerðar til að þess að opna sárið og hreinsa út. Það sé samróma álit teymis bæklunarlækna og handarskurðlækna á Landspítala sem skoðað hafi mál kæranda að engin skurðaðgerð hefði getað snúið við þegar orðnum skemmdum á hendinni enda efnið smogið út um allt í fjarhluta annars geisla og vísifingrinum sjálfum. Þá sé ljóst að mati Sjúkratrygginga Íslands að kæranda hafi verið sinnt í reglulegu eftirliti og veittar skýrar upplýsingar og ráð um heppilegustu meðferð, sem hann hafi þó ekki kosið að þiggja.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki fundið að þeirri meðferð sem kærandi hafi fengið á Landspítala í kjölfar slyssins, ekki verði annað séð en að greining og meðferð hafi verið samkvæmt því sem mælt sé fyrir af hálfu fræðasamfélagsins. Það sé því mat Sjúkratrygginga Íslands að þau einkenni sem kærandi kenni nú verði ekki rakin til meðferðarinnar sem hann hafi fengið á Landspítala þann X heldur verði þau rakin til upphaflega áverkans, þ.e. slyssins þann X. Með vísan til þessa séu skilyrði 1.-4. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 ekki uppfyllt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar sem fór fram á Landspítala þann X vegna vinnuslyss þann X séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1., 3. og 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að sú læknismeðferð sem kærandi hlaut á Landspítala hafi verið ófullnægjandi og ekki tilhlýðileg miðað við þann áverka sem hann hlaut og það hafi leitt til mikils tjóns fyrir hann.

Í greinargerð meðferðaraðila,C læknis, dags. 7. nóvember 2021, segir meðal annars svo:

„Með vísan til alls framangreinds hafnar undirritaður alfarið fullyrðingum í þá átt að læknismeðferð A hafi ekki verið eins vel háttað og kostur var. Þá er sérstaklega mótmælt þeirri órökstuddu fullyrðingu lýtalæknisins E um að það hafi orðið sú „yfirsjón að greina ekki þennan áverka strax og meðhöndla tilhlýðilega“. Læknismeðferð undirritaðs í þágu A var vönduð og í samræmi við bestu þekkingu og reynslu á sviði handarskurðlækninga. A var enn fremur sinnt í reglulegu eftirliti og veittar skýrar upplýsingar og ráð um heppilegustu meðferð, sem hann kaus þó ekki að þiggja.

Einkenni, sem A glímir við í dag, eru afleiðingar upphaflegs áverka af völdum vinnuslyssins og síðari sýkingar eftir aðgerð erlendis. Hann hefur gengist undir tvær tilgangslausar aðgerðir hjá öðrum læknum og hefúr kosið að þiggja ekki aðra tegund aðgerðar, sem er mjög líkleg til að bæta fæmi handarinnar.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi varð fyrir því þann X í vinnu sinni að efnið Webac 1440[1] sprautaðist með háþrýstidælu í lófa hans. Efnið er polyurethan efni sem er ertandi fyrir húð en hvarftími er einvörðungu fjórar mínútur. Kærandi kom tveimur dögum síðar á bráðamóttöku og er ljóst að þá þegar voru áverkar óafturkræfir og óbætanlegir. Honum var fylgt eftir með verkjastillingu og sýklalyfjum. Hann fór síðan úr þessu eftirliti og lét gera aðgerð um mánuði síðar og þá var efni hreinsað burt og í annarri aðgerð sem fram fór síðar var meira fjarlægt af efninu.

Að mati úrskurðarnefndarinnar lá tjónið fyrir eftir áverka og hefði þurft mjög skjót viðbrögð til að koma í veg fyrir það tjón sem kærandi varð fyrir í slysinu. Ljóst er vegna eðli áverkans að viðbrögð lækna við komu hans á bráðamóttöku tveimur dögum eftir slysið voru til þess fallin að lina þjáningar og draga úr sýkingahættu og þannig takmarka tjónið. Viðbrögð þeirra og sú ákvörðun að gera ekki aðgerð þá hafði ekki áhrif á tjón kæranda sem var þegar orðið að mati úrskurðarnefndarinnar. Kærandi fór úr meðferð lækna Landspítalans í framhaldinu í aðgerð annars staðar. Hvort hún var tímanleg og nauðsynleg á þeim tímapunkti er ekki til skoðunar. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að bótaskylda sé til staðar á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Samkvæmt 3. tölul. 2. gr. kemur til skoðunar hvort unnt hefði verið að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni en gert var og hvort það hefði gert sama gagn við meðferð sjúklings. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur miðað við lýsingu í gögnum máls að ætla verði að tjón kæranda hafi orðið vegna áverkans sjálfs. Ekki verður séð að annað meðferðarform hefði mögulega skilað betri árangri fyrir kæranda. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur því ekkert komið fram í gögnum málsins sem bendir til þess að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem hefði frá læknisfræðilegu sjónarhorni gert sama gagn við meðferð kæranda. Bótaskylda samkvæmt 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu er því ekki til staðar.

Kemur þá til skoðunar hvort bótaskylda verði grundvölluð á 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Samkvæmt ákvæðinu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þar með talinni aðgerð, sem ætlað sé að greina sjúkdóm og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu eru gefin viðmið hér að lútandi:

  1. Líta skal til þess hve tjónið er mikið.
  2. Líta skal til sjúkdóms og heilsufars viðkomandi að öðru leyti.
  3. Taka skal mið af því hvort algengt sé að tjón verði af umræddri meðferð.
  4. Hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Til nánari glöggvunar á því hvaða atriði eigi að leggja til grundvallar við framangreint mat verður að líta til tilgangs löggjafans og hvert markmiðið hafi verið með ákvæðinu. Í greinargerð með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kemur fram að markmið með nefndum 4. tölul. 2. gr. sé að ná til heilsutjóns, sem ekki sé unnt að fá bætt samkvæmt 1.–3. tölul. greinarinnar, en ósanngjarnt þyki að menn þoli bótalaust, einkum vegna misvægis á milli þess hve tjónið sé mikið og þess hve veikindi sjúklings voru alvarleg. Þá segir að við matið skuli taka mið af eðli veikinda og hve mikil þau séu svo og almennu heilbrigðisástandi sjúklings. Ef augljós hætta sé á að sjúklingur hljóti mikla örorku eða deyi, sé sjúkdómurinn látinn afskiptalaus, verði menn að sætta sig við verulega áhættu af alvarlegum eftirköstum meðferðar. Líkt og fram hefur komið telur úrskurðarnefndin að ástand kæranda sé að rekja til áverkans sjálfs fremur en þeirrar meðferðar sem hann hlaut á Landspítala. Úrskurðarnefndin telur ljóst að kærandi hafi ekki hlotið fylgikvilla af þeirri meðferð sem honum var veitt á Landspítala. Því telur úrskurðarnefndin að bótaskylda komi ekki til greina með vísan til 4. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



[1] https://www.webac-grouts.com/downloads/Sicherheitsdatenblaetter/en/SDS__WEBAC-1440-B__EN.pdf


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum